Það kom loksins að því að við drifum okkur í útilegu.
Við byrjuðum á því að skella okkur á tjald sem hefur verið á innkaupalistanum hjá mér í vetur þar sem maður er byrjaður í björgunarsveit. Ég keypti 4 manna 3 árstíða tjald hjá Íslensku ölpunum frá Zajo sem er ekki þekkt merki en ódýrt og þeir hafa víst verið með það í einhver ár. Ég ákvað að skella mér á eitt slíkt á 25 þús frekar en að kaupa Vango, North Face eða frá öðru þekktu merki á 60 þús + og held ég barasta að ég hafi gert ágætis kaup. Ég fjárfesti líka í nýrri dýnu, sjálfuppblásanlegri (þurfti smá hjálp svona í fyrsta skiptið) í Útilíf, eitthvað sem ég hugsaði sárlega til í Fyrstu hjálpinni, Ferðamennskunni og Fjallamennskunni :o/Nema hvað við byrjuðum ferðina snemma á laugardagsmorgni og vorum lögð af stað fyrir 9 og brunuðum beint austur, fram hjá Hveró, Selfoss, Hellu og stutt stopp á Hvolsvelli (pylsa og kók). Við stoppuðum svo aftur við Seljalandsfoss og smelltum af nokkrum myndum af fossinum í bak og fyrir (bókstaflega).Næsti foss var svo Skógafoss og tókum við smá göngu meðfram ánni, gengum í 30-45 mín með tilheyrandi myndatökum.Áfram hélt ferðin að Vík í Mýrdal þar sem var aftur stoppað, wc + olía og kíktum aðeins í túristabúðina en létum það vera að versla eitthvað þar. Næst lá leiðin yfir Mýrdalssand og Eldhraun og stoppuðum aðeins á Kirkjubæjarklaustri. Binni hafði gist þar í einhverju skólaferðalagi fyrir "nokkrum" árum og tókum við einn hring þar og nokkrar myndir af fossi/á sem rennur í gegnum bæinn. Ég sá svo þarna 4 ferkantaðar grindur upp í fjalli sem myntu mig óneitanlega á ártalsgrindurnar fyrir vestan þó sé lagt ívið meira í það ártal (fyrir þá sem ekki vita, þá eru þær í rúmlega hálftíma göngu upp í fjalli fyrir ofan Eyrina og eru grindurnar 8 talsins, gamla og nýja árið). Ekki var stoppið lengra þar og var næsta áætlaða stopp í Skaftafell. Þegar við komum að þanngað sáum við að við vorum á góðum tíma og ákváðum að fylla bílinn aftur og halda aðeins áfram að Jökulsárlóni og Reynivöllum í Suðursveit þar sem Binni og hans stórfjölskylda höfðu farið í bústaðarferð 3-4 sumur í röð, viku í senn. Binni hafði nefnlega ætlað að fara þanngað frekar lengi og ekki hægt að sleppa því þegar var komið svona nálægt. Mjög fallegur staður og rifjuðust upp margar góðar minningar hjá Binna þar. Við héldum svo til baka í Skaftafell þar sem tjaldinu var tjaldað og matur grillaður. Reyndar ekki á flotta ferðagasgrillinu sem ég vann á árshátíð Lauga-ás hér um árið en á hrað-grilli sem við keyptum á bensínstöðinni á Freysnesi á 200% álagningu. Þetta var voðalega krúttlegur kvöldverður og líklega sá rómantískasti hjá okkur parinu þarna í útilegustólunum með lítið plastborð í rigningu sem var að reyna að vera eitthvað en fékk ekki að vera meira en smá úði í senn. Við skelltum okkur fljótlega eftir matinn inn í tjald og hituðum okkur kakó, föttuðum þá að við klikkuðum á einhverju mesta aðalatriði í hvaða útilegu sem er og það eru spil. Ég skokkaði út í þjónustumiðstöð eftir spilum og fékk þá litla rigningin útrás þessar 5 mín sem ég var úti og kom ég vægast sagt rennandi blaut til baka. Við spiluðum til ca. 11 og lögðumst þá útaf mjög þreytt eftir daginn. Binni fékk nýju fínu dýnuna þar sem hann var með verri svefnpoka en ég. Eitthvað var nýja dýnan ekki nógu góð fyrir hann og svaf hann voða lítið í nótt meðan ég steinsvaf nánast alla nóttina, fyrir utan nokkru sinnum í veltingi milli hliða. Við vöknuðum svo snemma í morgun og var það ekki leiðinleg sjónin útum tjaldið, sólin að rísa upp yfir Hvannadalshnjúk. Við fengum okkur morgunmat í morgunsólinni og smá kakó og tókum svo allt dótið saman. Við veltum því fyrir okku að ganga upp að Svartafoss en ganga þanngað er 1 - 1 1/2 upp og niður og vildum við ekki vera í einhverju spani til baka til Rvk. Við ákváðum að drýfa okkur af stað og stoppa frekar við Dyrhólaey og skoða okkur aðeins þar um. Ég tók nokkrar myndir af öldunum meðan Binni skoðaði flottu steinana í fjörunni. Einn selur skaut hausnum aðeins upp og rétt þegar við sáum að þetta var selur stakk hann sér til sunds aftur og sást ekki meir. Við héldum svo ferðinni áfram heim og þar sem við vorum að keyra framhjá einhverju sem ég hafði þegar séð, var ég ekki lengi að sofna í farþegasætinu. Vaknaði svo aftur þegar við vorum að koma inn í Selfoss. Við hentum dótinu heim, í sturtu og svo út aftur fyrst að sólin er farin að láta sjá sig aftur. Skiluðum bílum til pabba og svo heim í tæka tíð fyrir úrslitaleik HM.
Vel heppnuð útilega og tjaldið stóðst úrhellisrigninguna um nóttina. Næst er spurning um að fara með tjaldið upp á Þingvelli og taka rúnt upp á Gullfoss og Geysi.
Sumarið er búið að vera mjög gott og stefnir í að halda því áfram :o)