mánudagur, ágúst 23, 2010

4 helgar í pakka

Ætla að koma nokkrum helgum fyrir í einni færslu fyrst ég er búin að vera svona léleg í þessu (helvítis facebook, er að reyna að snúa þróuninni við)

24.-25. júlí
Bústaðsferð
Fórum upp í bústað með Thelmu og Ingvari. Þetta var bara stutt helgarferð þar sem var farið til þess að borða, spila, drekka og bara almennt hafa gaman sem við gerðum. Thelma og Binni tóku upp gítarinn, hann spilaði og hún söng, ég og Ingvar erum hins vegar minna musicalscihlutinn í hvoru sambandi sátum hjá á meðan. Þetta var bara ein nótt þannig það var brunað aftur í bæinn á sunnudegi. Góð ferð með góðu fólki sem verður endurtekin í vetur ;o)

30.júlí-2.ágúst
Verslunarmannahelgi
Þá fór "stór" fjölskyldan upp í bústað, ég og Binni, Grétar og Spori, Bubba og Jara, Emma, Yuri, Aron (kærasti Yuri) og Oggi. Þau komu öll á undan mér þar sem ég var að vinna eitthvað, minnir föstudag og mánudag. Helgin fór í mikla vinnu í lóðinni og er þetta allt að koma. Grasið var slegið og Jónslundur var gerður mikið upp og er núna komið flott eldstæði til að grilla eða bara kveikja eld. Ég og Binni kíktum til Nonna frænda Binna, sem var þarna í bústað með vinafólki í Kjósinni og var sungið mikið og spilað þar. Við ákváðum að koma okkur heim eitthvað rétt fyrir 3 leitið en þar sem maður er í sveitinni þýðir ekkert annað en að labba (ekki hringir maður á leigubíl!!) og gerðum við það. Þetta er svo sem ekki mikil leið, ca 8 km, en það tók okkur alveg 2 klt með reyndar smá stoppi hjá nokkrum hestum á leiðinni, nokkrum sinnum. Daginn eftir var legið að mestu í leti og haft gott, mikill gestagangur var alla helgina og kíktu mamma og pabbi við hjá okkur og gáfum okkur lítil reynitré til að gróðursetja. Þeim var komið fyrir í steinagarðinum en verða færð á endanleganstað næsta vor/sumar. Ég þurfti svo að koma mér heim á sunnudeginum þar sem ég var að fara á morgunvakt á mánudeginum....svona er þessi vakta vinna. Þau hin voru eitthvað fram eftir á mánudeginum.

6.-8. ágúst
Roadtrip to Ísafjörður city
Mótorhjólaferðin mikla. Ég, Binni, Júlli bróðir og Solla konan hans vorum fyrr í sumar búin að ákveða að fara í smá roadtripp vestur á firði á hjólunum. Ég hef ekki farið vestur í ein 4 ár, eða síðan m&p fluttu suður. Mikla pælingar voru í hvernig við ættum að standa í þessu með farangurinn og var hluti af honum sendur með vél. Ferðin hófst um 9 hálf tíu héðan úr bænum og fórum við hina hefðbundnum leið nema í gegnum Búðardal og upp Bröttubrekku. Veðrið var meira og minna frábært alla leiðina og gekk ferðin vel þar til við komum í Reykjanes þar sem var byrjað að rigna á okkur. Áfram hélt ferðin. Binni greyið var orðin helkaldur þegar við stoppuðum rétt fyrir utan Álftafjörðinn til að hreyfa okkur aðeins, því hann er ekki með gler á hjólinu sínu. Þetta stutta stopp gerði þó mikið og brunuðum við síðasta fjörðin án stopps. Svo var komið í Skutulsfjörðinn. Get ekki sagt annað en maður hafi orðið svolítið klökkur að koma inn í fjörðinn og sjá fjöllin sín aftur og gamla heimabæinn. Við komum í húsið sem við gistum í um 4 leitið, drengirnir fóru í verslunarleiðangur og við skvísurnar tókum upp úr töskunum. Eftir matinn var tekinn smá lúr og svo ræs til að kíkja út á lífið. Það var reyndar hundleiðinlegt veður, en við fórum nú samt. Kíktum aðeins á Langa Manga í 1-2 bjóra. Tókum smá göngutúr um bæinn þar sem ég og Júlli vorum að segja gestunum frá hinu og þessu (hérna vann ég í fiski, hérna vann ég í niðursuðuverksmiðju, þetta var Norðurtanginn o.fl.) Svo var farið heim og undirbúið fyrir átök morgundagsins. Á laugardeginum var vaknað um 10 leitið og í þessari glampandi sól og blíðu, morgunmatur étinn á 1,23 mín og svo út. Byrjuðum á að fara út í Bolungarvík og sáum hvar göngin eiga að koma sitthvoru megin. Í Bolungarvík skelltum við okkur upp á Bolafjall sem sumir voru ekki alveg að meika vegna lofthræðslu en fóru nú samt. Nokkrar myndir teknar upp á fjalli og liðirnir hreyfði aðeins. Leiðinni niður náði lofthræðslan tökum á sumum sem ákváðu að stökkva af hjólinu rétt fyrir mjög krappa beygju (nánast 180°) og sögðust ætla að hlaupa niður fjallið. Asinn var svo mikill að viðkomandi tók ekki hjálminn af sér og var þetta því mjög kómískt að sjá þennan aðila hlaupa niður beygjuna í leðurklæðum með mótorhjólahjálm á hausnum og einmitt á þessum tímapkt kom bíll á móti, fullur af túristum sem gátum ekki annað en hlegið að þessari sýn sem og við hin reyndar líka. Viðkomandi sá að sér og settist á hjólið aftur, smá bið var á ferðinni niður meðan ferðafélagarnir jöfnuðu sig og náðu hlátrinum niður. Næsta stopp var á Flateyri, fengum okkur kaffi á krúttlegasta, ömmulegasta kaffihúsi sem ég hef séð Purka handverkshús og brúðusafn. Þarna eiga eldra fólks sína félgasmiðstöð, er þarna yfir veturinn að gera muni úr gleri og leir og selja svo ferðamönnum á sumrin. Það verður varla meira kósý að fá sér flatköku með hangikjöti, skúffuköku og kókómjólk með eina ömmu að prjóna við hliðina á sér. Hún sýndi okkur líka aðeins þarna á bakvið og var bara almennt æðisleg. Verst að við keyptum ekkert hjá þeim, sáum eiginlega strax eftir því. Við kíktum svo aðeins upp í varnargarð og nutum útsýnisins og héld svo ferðinni áfram. Enduðum á klassík, sem er sund á Suðureyri í sólinni. Nett nostalgía að keyra þarna framhjá, sjá gamla félagsheimilið sem er allt í niðurníðslu en þarna voru síðustu sveitaböllin eins og við þekkjum þau. Eftir sundið var drifið heim á Ísó aftur. Smá vesen var með mat því við vorum það seint á ferðinni en eftir lúrinn fengum við okkur að borða á Thai Koon sem var bara mjög gott. Fólk var svolítið þreytt eftir daginn en aftur skelltum við okkur út. Bryn var í bænum og hitti ég hana og spjallaði heillengi á Langa Manga, meira af fólki var í bænum þetta kvöldið og voru þau hin úti að spjalla við eitthvað fólk. Á endanum kom Binni til mín og við fórum heim í hús aftur þar sem við þurftum að ná góðum nætursvefni fyrir ferðina heim. Helgin var aðeins farin að segja til sín á sunnudeginum og var fólk almennt mjög þreytt og vorum við sammála því að næst, verður hvílt á sunnudeginum og farið heim á mánudegi. Sama fyrirkomulag var með farangurinn, hluti af honum var sendur með vél. Við bjuggumst svo sem við því að hann kæmist ekki fyrr en daginn eftir því þegar við vöknuðum var svartaþoka úti, ég stóð á norðurtanganum og sá ekki fjallið hinum megin sem er bara í nokkuð hundruð metra fjarlægð. Það létti svo til þegar sólin hækkaði og tími til að kveðja Ísafjörð eftir frábæra snilldarhelgi. Það var smá stopp í Súðavík og náðum á mynd nokkuð merkilegu, það var hákarl sem hafði villst inn fjörðinn og var bara að syndar þarna um greyið, ca. 2 metrar á lengd. Eftir annað smá stopp hjá vinnufélögum hennar Sollu var ferðinni formlega haldið áfram í þessu fína veðri. Við stoppuðum aftur inn í Kálfavík þar sem Bryn, Bogga og Hjalti (foreldrar Bryn) voru á leið suður og ég hafði ekki náð að hitta þá þessa helgina. Við stoppuðum þar líka og fengum rúnt um húsið sem Hjalti ólst upp í og voru myndir af fyrri húseigendum upp um alla veggi og gaman að heyra sögu þessa húss. Við vorum þarna á spjalli í stutta stund en svo var komið að því að halda áfram, en mikið rosalega var gott að hitta þau aftur eftir allan þennan tíma, minningarnar helltust alveg yfir mann. Ferðin gekk mjög vel það sem eftir var, veðrið var gott en hins vegar fann maður meiri þörf á stoppum þar sem hné og mjaðmaliðir voru orðnir frekar stífir og rassinn virkilega farinn að finna fyrir setunni. Við komum heim eitthvað um kl.22 um kvöldið, fengum okkur síðbúinn kvöldmat og svo beint í háttinn, þreytt, glöð og sátt eftir góða helgi sem verður klárlega endurtekin!!!

Næstu daga hjá mér var bara vinna meir og minna, og því lítið frá því að segja.

21.-22.ágúst
Reykjavíkurmaraþon 2010
Þá var loksins komið að áskorun ársins, eitthvað sem ég var búin að hlakka til og kvíða fyrir síðan ég skráði mig í vor í hálft maraþon. Var búin að vera vinna undanfarna viku en með því að byrgja mig upp að kolvetnum og drekka vel af vatni. Á föstudeginum fékk ég mér kjötsúpu sem vantar ekki orkuna í, hefði kannski átt að fá mér aðeins meira af kölvetnum þennan dag en varð svo sem ekki meint af. Á hlaupadaginn sjálfan vaknaði ég eldsnemma, fékk mér hafragraut og fór 4-5 sinnum yfir allt sem ég þurfti að hafa með mér. Tók svo strætó niðureftir svo Binni gæti tekið á móti mér og farið með mig heim á bílnum. Smá stress að taka strætó á réttum tíma og fara út á réttum stað. Þegar ég var komin niður eftr helltist kvíðin yfir mig því ég sá fullt af fólki, með rauð (hálft) og græn (heilt) spjöld utan á sér og hálft tími í hlaup, á ég að trúa því að fólk sé að hita upp í hálft tíma fyrir hlaup. Ég fór á Einar Ben þar sem Boot Camparar höfðu fengið athvarf fyrir eigur sínar, og róaðist ég aðeins við að koma þar inn því þar voru fleiri sem höfðu ekki verið að æfa stíft í allt sumar (tek það fram, alls ekki búin að æfa mig nægilega mikið í sumar. 2 x 12,8 km er ekki nóg fyrir 1/2 maraþon). 10 mín í hlaup dreif ég mig út....og svo reið skotið af. Mikill fjöldi af fólki er að taka þátt í þessu og fer hlaupið alltaf hægt af stað. Ég passaði mig á því að stoppa alltaf á vatnsstöðvunum og drekka Powerade og vatn og reyndi eins og ég gat að fara ekki of hratt. Fyrstu 10 km voru heldur fljótir að líða og náði ég milli tímanum 1:03 sem er bæting frá því í fyrra. Þegar ég var komin yfir millitímann fór að renna á mig tvær grímur og fann ég þreytuna koma rosalega upp í fæturnar hjá mér. Það voru kannski 2 km í næstu vatnsstöð en ég hljóp/skokkaði alveg þanngað. Hvíldi mig aðeins þar, fékk mér púst og að drekka og fann orkuna skila sér í fæturnar. Áfram hélt hlaupið. Upp Sundagarða að Vatnagörðum og þaðan upp á Sæbraut. Ég náði nokkrun veginn að halda mér hlaupandi, þó með nokkrum göngum sem ég reyndi að stíla alltaf inn á vatnspásurnar. Þegar ég er að koma á síðustu 2-3 km sé ég hvar Boot Camp bíllinn er og 2 þjálfaranna standa og hvetja liðið, þessi hvatning gaf mér einhverja óútskýrða auka orku og gaf ég nokkuð vel í á þessum kafla sem gaf mér einhvern versta hlaupasting sem ég hef fundið en náði að ganga hann af mér á nokkrum sek og tók upp hlaupið aftur og ákv að núna yrði hlaupið það sem eftir væri. Harpa nálgaðist óðfluga (samt ekki nógu hratt) og ég leit á úrið mitt og sá að ég mundi líklega ná markmiðunum mínum en bara ef ég held áfram á þessum hraða. Rétt áður en ég kom í beygjuna heyrði ég einhvern kalla "áfram, það er lítið eftir" og gaf ég aðeins meira í. Í beygjunni sá ég markið og heyrði og sá BC félaga hvetja mig áfram, gaf þá aðeins meira í. Sá þá loksins markið í allri sinni dýrð og heyrði hrópin og köllin frá fólki að hvetja mig (sem og aðra hlaupara) áfram og það var ekki annað hægt en að gefa sinn síðasta dropa í þessa síðustu metra. Markinu náð, tími 2:22:50 sem er það sem ég sagði fyrir hlaup "bara draumur í dós". Ég fékk peninginn fyrir hlaupið og sá konu innar við markið með myndavél sem sagði mér að brosa. Veit ekki alveg hvaða svip ég gaf henni en held að þjáningarfull brosgretta full stolti lýsi því nokkurn veginn. Svo kom stífleikinn. Gekk þarna um í girðingunni og vissi hvert ég ætti að fara. Leitaði að Binna en sá hann ekki, sem er svo sem ekki skrítið því það var stappað af fólki. Fór einhverja fjallabaksleið út úr girðinginni og þegar ég gekk til baka með fram markinu heyrði ég hvernig fagnaðarlætin jukust....sigurvegari úr heilmaraþoni var að koma í mark, rétt á eftir mér úr hálfmaraþoni. Ákvað að fara á Einar Ben og ná í dótið mitt og hringja í Binna því það mundi ekkert virka að leita að honum þarna. Ganga upp og niður stigann á Einari Ben er eitthvað sem ég hélt ég mundi látast við að gera en hafði það af og hitti Binna við strætóstöðina rétt hjá Austurstræti. Við komum okkur mjög hægt og rólega að bílnum sem var á háskólabílastæðinu og stoppuðum á Subway á leiðinni heim. Þegar ég kom heim gerði ég mér grein fyrir því að ég hefði ofreynt mig í hlaupinu. Komin með höfuðverk, magaverk eftir matinn, skalf öll og titraði, reyndi að sofna en gekk ekkert allan daginn ekki fyrr en ég fékk mér heitamjólk með hunangi og náði þá að sofna í ca. klt. Ég hafði drukkið vel af vatni yfir daginn og var laus við skjálftann um 7 leitið. Við vorum ekki alveg viss hvort við vildum/nenntum á djammið en ég dreif mig í fínni föt, málaði mig og fékk mér bjór. Við skelltum okkur á Nings í kvöldmat og ætluðum til Júlla og Sollu eftir matinn, það breyttist snögglega og sá ég þá að ég var ekki í neinu standi til að fara á eitthvað djamm eða niður í bæ. Við ákv því bara að taka því rólega, tókum okkur video og kúrðum upp í sófa með rokið úti. Ég var svo meir og minna allan sunnudaginn að jafna mig og haltraði áfram með mín íþróttameiðsl (vinstri ökklinn var eitthvað off, hnéinn bæði líka og hægri mjöðmin þoldi ekki mikið álag). Núna í dag er þetta allt komið í lag nema ökklinn, hann er enn eitthvað sár en er að skána.

Framundan er svo að koma reglu á líf sitt aftur, skólinn hefst á morgun og vinnan verður 3. hverja helgi. Björgunarsveitin heldur líka áfram og verður 2. helgi í mánuði.
Þetta er búið að vera snilldarsumar, með ferðalögum um landið, vinna og frí, hitta góða vini í sólinni og bara almenn vellíðan. Hefði ekki geta beðið um meira og vona bara að mitt síðasta ár í skólanum gangi jafnvel upp og sumarið.