sunnudagur, júlí 11, 2010

Útilega 10-11 júlí

Það kom loksins að því að við drifum okkur í útilegu.
Við byrjuðum á því að skella okkur á tjald sem hefur verið á innkaupalistanum hjá mér í vetur þar sem maður er byrjaður í björgunarsveit. Ég keypti 4 manna 3 árstíða tjald hjá Íslensku ölpunum frá Zajo sem er ekki þekkt merki en ódýrt og þeir hafa víst verið með það í einhver ár. Ég ákvað að skella mér á eitt slíkt á 25 þús frekar en að kaupa Vango, North Face eða frá öðru þekktu merki á 60 þús + og held ég barasta að ég hafi gert ágætis kaup. Ég fjárfesti líka í nýrri dýnu, sjálfuppblásanlegri (þurfti smá hjálp svona í fyrsta skiptið) í Útilíf, eitthvað sem ég hugsaði sárlega til í Fyrstu hjálpinni, Ferðamennskunni og Fjallamennskunni :o/Nema hvað við byrjuðum ferðina snemma á laugardagsmorgni og vorum lögð af stað fyrir 9 og brunuðum beint austur, fram hjá Hveró, Selfoss, Hellu og stutt stopp á Hvolsvelli (pylsa og kók). Við stoppuðum svo aftur við Seljalandsfoss og smelltum af nokkrum myndum af fossinum í bak og fyrir (bókstaflega).Næsti foss var svo Skógafoss og tókum við smá göngu meðfram ánni, gengum í 30-45 mín með tilheyrandi myndatökum.Áfram hélt ferðin að Vík í Mýrdal þar sem var aftur stoppað, wc + olía og kíktum aðeins í túristabúðina en létum það vera að versla eitthvað þar. Næst lá leiðin yfir Mýrdalssand og Eldhraun og stoppuðum aðeins á Kirkjubæjarklaustri. Binni hafði gist þar í einhverju skólaferðalagi fyrir "nokkrum" árum og tókum við einn hring þar og nokkrar myndir af fossi/á sem rennur í gegnum bæinn. Ég sá svo þarna 4 ferkantaðar grindur upp í fjalli sem myntu mig óneitanlega á ártalsgrindurnar fyrir vestan þó sé lagt ívið meira í það ártal (fyrir þá sem ekki vita, þá eru þær í rúmlega hálftíma göngu upp í fjalli fyrir ofan Eyrina og eru grindurnar 8 talsins, gamla og nýja árið). Ekki var stoppið lengra þar og var næsta áætlaða stopp í Skaftafell. Þegar við komum að þanngað sáum við að við vorum á góðum tíma og ákváðum að fylla bílinn aftur og halda aðeins áfram að Jökulsárlóni og Reynivöllum í Suðursveit þar sem Binni og hans stórfjölskylda höfðu farið í bústaðarferð 3-4 sumur í röð, viku í senn. Binni hafði nefnlega ætlað að fara þanngað frekar lengi og ekki hægt að sleppa því þegar var komið svona nálægt. Mjög fallegur staður og rifjuðust upp margar góðar minningar hjá Binna þar. Við héldum svo til baka í Skaftafell þar sem tjaldinu var tjaldað og matur grillaður. Reyndar ekki á flotta ferðagasgrillinu sem ég vann á árshátíð Lauga-ás hér um árið en á hrað-grilli sem við keyptum á bensínstöðinni á Freysnesi á 200% álagningu. Þetta var voðalega krúttlegur kvöldverður og líklega sá rómantískasti hjá okkur parinu þarna í útilegustólunum með lítið plastborð í rigningu sem var að reyna að vera eitthvað en fékk ekki að vera meira en smá úði í senn. Við skelltum okkur fljótlega eftir matinn inn í tjald og hituðum okkur kakó, föttuðum þá að við klikkuðum á einhverju mesta aðalatriði í hvaða útilegu sem er og það eru spil. Ég skokkaði út í þjónustumiðstöð eftir spilum og fékk þá litla rigningin útrás þessar 5 mín sem ég var úti og kom ég vægast sagt rennandi blaut til baka. Við spiluðum til ca. 11 og lögðumst þá útaf mjög þreytt eftir daginn. Binni fékk nýju fínu dýnuna þar sem hann var með verri svefnpoka en ég. Eitthvað var nýja dýnan ekki nógu góð fyrir hann og svaf hann voða lítið í nótt meðan ég steinsvaf nánast alla nóttina, fyrir utan nokkru sinnum í veltingi milli hliða. Við vöknuðum svo snemma í morgun og var það ekki leiðinleg sjónin útum tjaldið, sólin að rísa upp yfir Hvannadalshnjúk. Við fengum okkur morgunmat í morgunsólinni og smá kakó og tókum svo allt dótið saman. Við veltum því fyrir okku að ganga upp að Svartafoss en ganga þanngað er 1 - 1 1/2 upp og niður og vildum við ekki vera í einhverju spani til baka til Rvk. Við ákváðum að drýfa okkur af stað og stoppa frekar við Dyrhólaey og skoða okkur aðeins þar um. Ég tók nokkrar myndir af öldunum meðan Binni skoðaði flottu steinana í fjörunni. Einn selur skaut hausnum aðeins upp og rétt þegar við sáum að þetta var selur stakk hann sér til sunds aftur og sást ekki meir. Við héldum svo ferðinni áfram heim og þar sem við vorum að keyra framhjá einhverju sem ég hafði þegar séð, var ég ekki lengi að sofna í farþegasætinu. Vaknaði svo aftur þegar við vorum að koma inn í Selfoss. Við hentum dótinu heim, í sturtu og svo út aftur fyrst að sólin er farin að láta sjá sig aftur. Skiluðum bílum til pabba og svo heim í tæka tíð fyrir úrslitaleik HM.
Vel heppnuð útilega og tjaldið stóðst úrhellisrigninguna um nóttina. Næst er spurning um að fara með tjaldið upp á Þingvelli og taka rúnt upp á Gullfoss og Geysi.
Sumarið er búið að vera mjög gott og stefnir í að halda því áfram :o)

fimmtudagur, maí 27, 2010

Próflok og Eurovision...

Eurovision....
Eins og oft áður en landinn að missa sig yfir Júróvisíon og enn og aftur erum við að fara að vinna þetta. Var á youtube að fá smá nostalgíu og rifja upp hin og þessi myndbönd, Nína stendur alltaf fyrir sínu, Icy rífur að sjálfsögðu upp alíslenska egóið, Palli kemur með eðaleurofílingnn og svo inn á milli koma kjánahrollsgæsahúðin sem enginn vill muna eftir (Hægt og hljótt!!!).
Það er samt alveg magnað hvað það þarf "lítið" til að við að ná egóinu upp hjá þessari þjóð (við erum náttúrulega best...hinir bara vita það ekki) en árið 1986 tókum við fyrst þátt með Icy og þá vorum við sko að fara að meika það en gerðist ekki...næstu árin vorum við alltaf að fara að meika það og sendum einstaka sinnum inn eitthvað svona gríndæmi eins og Sókrates og Sjúbbídú. Svo ætlaði allt um koll að keyra árið 1999 þegar Selma var í topp baráttunni um fyrsta sætið og var góður möguleiki á því alveg fram að næst síðustu þjóðinni og Svíagrýlan hirti sigurinn af okkur. Næsta árið vorum við aftur svoooooo að fara að vinna þessa keppni með Tell me en lentum í 12. sæti og Danmörk vann með gömlu köllunum. Næstu 10 árin gerist svo sem ekki mikið, við erum með, við erum ekki með, við gefum skít í keppnina og sendum Silvíu Nótt sem er einhver mesti brandari sem Evrópa hefur misskilið fyrr og síðar þar til í fyrra 2009 þegar við nældum okkur í 2. sætið, vorum reyndar í baráttu um 2. eða 3. sætið og kom það ekki í ljós fyrr en á síðustu atkvæðum og þá var það Norsari sem hirti sigurinn okkur. Það er ekki laust við það að maður finni fyrir smá svona "við erum að fara að vinna þetta núna" viðhorfið eins og var mikið hérna í gamla daga, þegar við vorum að fara að vinna en lentum í 12-16. sæti.
Þannig spurningin er þessi: eru væntingar okkar til sigurs raunhæfar eða er þetta "við erum best í heimi" viðhorfið endurvakið og við lendum í 12. sæti eins og fyrir 10 árum eða þaðan af verra....16 sæti!?! (erum reyndar 16. í röðinni á laugardaginn)
Ég er alla vega spennt fyrir laugardeginum og vona að hann verði jafngóður og í fyrra...það var fyrsti alminnilega sólardagurinn eftir hrun, allir að grilla, Ísland að brillera í Eurovision og fólk áberandi glatt og skemmta sér vel í miðbænum, en smá meiri Euronostalgía á youtube

...já og prófin eru búin PUNKTUR!!!!

mánudagur, mars 22, 2010

Árshátíð Ársæls

Árshátíð Ársæls var haldin með glæsibrag á Hótel Loftleiðum á laugardaginn. Við nýliðarnir sáum um annað videoið af tveimur og tókst okkur all svakalega vel til :o) videoið var sett á facebook en ég vona að það verði hægt að horfa á það hérna. Maturinn var rosalega góður með æðislegum eftirrétt og hefði þetta verið alveg meiriháttar hefði DJ-inn verið AÐEINS betri, en það dugar víst ekki að kvarta undan því núna. Eftir Hótel Loftleiðir arkaði hópurinn niður á Danska barinn (formerly known as Ari í Ögri). Ég var orðin svolítið þreytt endan búin að þramma fram og tilbaka á nettum háum hælum og ekki náð að venja mig mikið við (nokkrir klt daginn áður gera líklega ekki mikið). Bryn kom og hitti mig á barnum og við spjölluðum aðeins enda ekki búnar að hittast í tvo mánuði meðan hún var úti í Kenýa og Indlandi. Ég skellti mér svo fljótlega heim og hitti svo skemmtilega á að Binni var að koma heim á svipuðum tíma og ég.
Sunnudagurinn var svo tekinn með ró eins og hægt er. Næsta helgi verður álíka fjör þegar Vorfögnuður og 5 ára afmæli Boot Camp verður haldið :o)

mánudagur, mars 08, 2010

Rústabjörgun

jæja lets blog some blog...það verður víst nóg að gera hjá mér í mars mánuði sem verður vert að nefna og því um að gera að halda í við bloggið (þó maður virðist nú ekki gera það skólalega séð, en það er annað mál)
Núna á helginni var síðasta helgarnámskeiðið sem var rústabjörgunarnámskeiðið á Gufuskálum í einhverju mesta rokrassgati sem sögur fara af.
Ferðin byrjaði á föstudaginn og eftir 3 klt akstur áttum við að taka smá æfingum sem fólst í því að skríða öll saman í göngum, búin til úr steypuröri, í myrkri (engin höfuðljós) sem ég hefði verið rosalega spennt fyrir en þar sem göngin voru full af snjó og vatni var ákveðið að bíða með það fram á sunnudag fyrir þá sem vildu, annars hefðum við verið blaut og köld alla helgin. Svolítið skemmtileg tilbreyting að leiðbeinendur taki tillit til þess. Önnur tilbreyting var sú að við vorum í húsi og sváfum á rúmi/beddum/sófa og höfðum eldurnaraðstöðu og sturtu (og "heitan" pott, kem að því síðar). Við vorum 11 saman í íbúðinni sem ég var í og virðist sem helstu hávaðseggirnir hafi safnast saman í þeirri íbúð en meira rólega fólkið í hinni íbúðinni. Svolítill galsi var í fólki þó erfiðin hafi ekki verið byrjuð og tók smá tíma að ná hlátrinum niður og fara að sofa. Brandari kvöldsins var svo víst þegar ég var komin upp í beddann minn (við vorum 5 saman í stofunni) og að koma mér fyrir þegar Árni gekk fram hjá og fannst það virkilega sniðug hugmynd að ýta aðeins í beddann. Að ýta í beddann leiddi svo í að taka upp endann þar sem labbirnar voru (beddinn leggst saman eins og samloka). Þetta endaði með því að fæturnar við höfuðið lögðust niður um hjarirnar og ég skall með höfuðið á borðkantinn. Sem betur fer vissi ég að borðinu fyrir aftan mig og passaði upp á höfuðið en restin af fólkinu veltist um af hlátri á gólfinu og það liðu um 15 mín þar til Árni gat stunið upp úr sér "fyrirgefðu" og "er allt í lagi með þig?" Einhverra hluta vegna tókst honum og Arnari að snúa þessari sögu upp í það ég hafi beygt beddann og gert þetta sjálf!!!! Þetta er hins vegar það sem gerðist sama hvað hver segir hvað!!!!
Laugardagurinn byrjaðir eeeeeeeeeeeeeeeldsnemma með fyrirlestri kl.8:00 til hádegis. Eftir klt hádegi var okkur skipt í 4 hópa og fengum 4 pósta tengda rústabjörguna.
1. pósturinn sem ég og minn hópur fórum í var hlustun. Þá er maður með ákveðið tæki sem nemur hljóð eftir vegg, gólfi, rörum og fl. Æfingin gekk s.s. út að það að lítill hlutur var undir kassa og var að pikka í gólfið. Svo átti maður að ganga um og leggja hlustina að gólfinu eða einhverju og reyna að átta sig á hvaðan hljóðið er að koma. Maður mátti hins vegar ekki leggja hlustina á kassana og mátti bara lyfta upp kassa einu sinni. Mér mistókst í þessari æfingu, þ.e.a.s. ég fann ekki tækið.
2. pósturinn var að smíða styrkingar í gám. Það er ákveðið kerfi sem er notað til að smíða þessar styrkingar og þurftum við að mæla lengdina og svo saga timbur niður í þá lengd sem við þurftum mínus 2 x hraukar sem notaðir eru til styrkingar. Erfitt að útskýra þetta á rituðu en þetta meikar alveg sens þegar maður er að gera þetta. Við þurftum þó ekki að saga neitt niður en við þurftum að leita að bútunum svo æfingin væri ekki alltof stutt.
3. pósturinn var svo að draga níðþungan gám/hólk eða eitthvað svoleiðis dót ofan af holu í jörðinni. Við þurftum að nota rör, spítur og tallíu til að draga þyngslið yfir. Það gekk kannski ekki alveg best og vorum við nokkuð lengi að því enda bara 4 stelpur og 1 strákur þannig ég kenni þessu frekar um kröftum heldur en tækni og hana nú!!
4. pósturinn var svolítið skemmtilegur. Þá þurftum við að lyfta upp örugglega svona 500 kg steypuplötu og tryggja með hraukum (trébútar að sömu stærð). Það var smá basl og þurftum renna stoðum undir hvert horn 4 hæðir. Hins vegar þegar það var búið var komið að því að reyna á traustið og renna sér undir plötuna og ofan í holuna sem var þar undir. Það tók alveg smá á en samt mjög svo töff.

Eftir æfingarnar var dagurinn eiginlega búinn og við fórum aftur upp í íbúð og elduðum okkur eitt og annað. Svo var vídeókvöld þar sem við horfðum á klt myndband um jarðskjálfta í Mexíkó 1985. Miða við það sem hefur gerst í heiminum í dag, Haiti, Chile og Tyrkland þá er rústabjörgun eitthvað sem er mjög nauðsynlegt.
Eftir videoið fórum við tilbaka og skelltum okkur í heitapottinn. Tróðum okkur 11 stk í 6 manna pott. Needless to say, var mjög þröngt. Það var næstum því alveg kósýlegt í pottinum það var hins vegar hávaðarok og hitastigið var fljótt að falla niður í 36°C. Eftir pottinn fóru strákarnir (Addi og Arnar) að baka pönnsur fyrir liðið sem féll illilega vel í hópinn. Við kíktum svo aðeins í heimsókn í hina íbúðina þar sem fólk var hið rólegasta eftir annasaman dag. Við fórum svo fljótlega að hátta til að vera fersk næsta dag, eitthvað rétt yfir miðnætti. Rétt þegar við vorum að festa svefn kveiknaði allt í einu á sjónvarpinu!!! Ég og Sigrún hrukkum við endan næstar sjónvarpinu og Sigrún teygði sig og slökkti á því. Hjartað skaust liggur við upp í heila og tók smá tíma að ná sér niður aftur. Aftur þegar ég var rétt að ná að sofna hringir síminn hjá mér og Sigrúnu á sama tíma úr óþekktu númeri!!! Ég veit ekki hvert litla hjartað mitt ætlaði, að verða brugðið svona rosalega á svona skömmum tíma. Aftur reyndum við að sofna og var maður við það að sofna þegar einhver hlepur framhjá, ber á hurðina og kalla "útkall, útkall, mæting eftir 5 mínútur". Aftur hrukkum við upp og núna strákarnir í stofunni með okkur. Eftir smá stund ákváðum við þó að þetta hlyti að vera djók því enginn annar var farinn að hreyfa sig og engin hreyfing í hinni íbúðinni eða hinu fólkinu með okkur í íbúð. Þannig við skelltum okkur bara aftur á koddan til að halda áfram að sofa. Eftir 10 mín er aftur bankað og kallað á útkall. Við rumskum við okkur og byrjum að klæða okkur og koma okkur á fætur. Katrín fór upp og vekja hina. Hins vegar þegar við erum komin út, var allt slökkt. Strákarnir tóku smá rúnt niður á svæðið og kennslustofurnar en enginn við nein staðar. Fer þá að renna upp fyrir okkur að þetta er andskotans hrekkur!!! Þá er spurningin hverjir voru þetta, voru þetta leiðbeinendurnir og þau í hinni íbúðinni ekki vaknað eða voru þetta þau í hinni íbúðinni sem er frekar ólíklegt því allir þeir sem gætu dottið þetta voru í minni íbúð. Það kom svo á daginn að þeim datt þetta víst ekki í hug að sjálfsdáðum heldur fengið hugmyndir af því sem leiðbeinendurnir höfðu gert á sínum námskeiðum hér í den...þau fá ekki fullt kredit fyrir þetta!!! Eftir allt vesenið held ég að ég hafi náð að sofna um svona 3 hálf4....
Sunnudagurinn byrjaði svo mjög þreyttur kl.8:00 með fyrirlestri. Kl 13 var svo æfing niðri á svæði þar sem við áttum að bjarga fólki úr rústum. Ógeðslega gaman að skipuleggja og renna upp stoðum og tryggingum og troða sér inni í litla glufur til að koma manneskjunni út. Í rústinni þar sem ég var með í hóp var steypuplata skáhalt yfir gólfinu og þurfti maður að skríða á maganum til að komast að sjúklingnum. Hann var svo í mjög þröngu steypuröri og gatið til að ná honum út var með steypujárni niður úr og upp úr og munaði mjög litlu að reka hana upp undir í járnir, s.s. mjög erfiðar aðstæður. Því miður vorum við of sein í að bjarga þessari konu og hrundi byggingin áður en við komumst út, en við björguðum hinnum sjúklingnum.
Síðasta verkefni dagsins var svo að skríða í göngunum fyrir þá sem vildu. Fengum hins vegar að vera með ljósin á og aðeins styttri vegalengd en það sem við áttum að fara á föstudagskvöldið. Ég þakka fyrir að ég fann ekki fyrir neinni innilokunarkennd en það er svo sem auðvelt þegar maður veit að maður er öruggur og kemst út.

Svo var 3 klt keyrsla heim þar sem fólk svaf mismikið en flestir þó eitthvað. VIð enduðum á stælnum í hamborgar um kl. níu um kvöldið eitthvað sem við hefðum átt að vera löngu byrjuð á að gera. Munum standa okkur betur næsta vetur í því.
Þetta var svo öll rústabjörgunin, held að þetta sé hópur fyrir mig og þaðan kannski í Alþjóðabjörgunarsveitina (þeir sem fara á hamfarasvæðin).

Annað sem er að gerast í mánuðinum er árshátíð Ársæls og helgina eftir er vorfögnuður Boot Camp. Þar á eftir eru það páskarnir en ég er að vinna þá helgi.

Núna þessa dagan er skólinn bara stjórnun og skipulagning sem virðist ekki ná yfir neitt annað (þ.e. stjórnunin og skipulagningin)

Bið að heilsa ykkur í bili....