laugardagur, mars 12, 2011

Síðustu dagarnir og heimkoman

Síðustu dagarnir....nr.? – 13.dag (11.mars)

Hætt að halda tölu yfir þá daga sem ég hef verið að skrifa þannig ég sleppi því bara. Er núna með netið í síðasta skiptið á hótelinu (miðvikudag) því ég fer svo heim á föstudaginn í, að mér skilst, vetraríkið Ísland (það gat ekki gerst um jólin, var það?!) Er að fara á síðustu vaktina í kvöld og vona heitt og innilega að það verði aðeins meira að gera í kvöld en í gær. Það var það rosalega lítið að gera að ég leyfði mér (í samráði við hjúkkuna sem ég var að elta...) að fara heim upp úr kl.21. Á morgun er svo síðasti dagurinn í Danaveldi, ætla að reyna að nýta hann í eitthvað uppbyggilegt (a.k.a eyða pening...) grínlaust þá ætla ég kíkja kannski aðeins í Fields og ath hvort eg sjái eitthvað sniðugt á billegu verði. En eins og það er nú búið að vera gaman hérna í Danmörk þá er mig svolítið farið að hlakka til að komast heim til kalls og kattar, svolítið fyndi með köttinn. Þegar ég hef verið með netið þá hef ég og Binni spjallað saman í gegnum Skype, sem er svo sem ekki frásögu færandi, nema kötturinn er fljótur að koma að tölvunni þegar ég tala og svipast um eftir mér. Hef prufað að kalla á hann eins og ég geri þegar ég er heima og þá kemur hann hlaupandi til og reynir að finna mig. Hefur meira að segja gengið svo langt að leggjast á tölvuna þaðan sem hljóðið kemur. Gott að vita að manns er greinilega saknað á heimilinu af fleirum en kallinum sínum :o)

Farin á vaktina....ef það gerist eitthvað þá læt ég ykkur vita. Þetta hefur samt alveg verið lærdómsríkt, er búin að fylgjast með nokkrum einföldum og flóknum saumum, gifsun, meðferð við lyfjaeitrun og svo við hjartastoppi. Ég lærði að sauma (þó ég hafi ekki gert það á sjúklingi, gæti ég örugglega saumað lítið clean-cut ef nauðsynlega þyrfti...) og lærði mikið af því að fylgjast með starfsmönnum spítalans að sinna sjúklingnum í hjartastoppi, þó ég hafi ekki tekið þátt finnst mér ég aðeins tilbúnari fyrir þegar það gerist fyrir minn sjúkling á minni vakt (ætla ekki að segja ef því þetta mun gerast og þá verður hjúkrunarfræðingur að vera viðbúinn). Ég náði að bæta mig aðeins í dönskunni en er enn frekar hikandi þegar fólk er að tala við mig, tekur um svona 3-4 sek að átta mig á hvað fólk hefur verið að segja við mig. Í dag fór ég svo á skiptinema fundinn þar sem við vorum að „ígrunda“ ákveðin atvik sem við höfum upplifað í verknáminu og hópurinn minn tók til atvikið með sjúklinginn sem fór í hjartastopp á deildinni. Spurningin var svo hvað hefði ég sem skiptinemi gert til að læra betur af reynslunni því í rauninni eru ekki mörg námstækifærin í svona atvikum, nema að standa úti í horna og fylgjast með. Við í hópnum höfðum líka rætt okkar á milli um starfshætti hjúkrunarfræðinga í Danmörku og án þess að vera að lasta danska hjúkrunarfræðinga þá held ég að ég mundi ekki vilja starfa þar til lengri tíma litið við hjúkrun. Nema hvað, við tókum þetta dæmi fyrir hópnum og svo þegar búið var að ræða það fékk ég leyfi til að koma mér í, því ég ætlaði að nýta síðasta daginn minn í að klára versla smá. Var búin að sjá nokkra flotta kjóla á netinu og ætlaði að kíkja í búðirnar en þeir voru svo ekki til í þeim búðum sem ég fór í þannig ég kem kjólalaus til baka. Það er svo sem í lagi því ég hef náð að versla aðeins meira að hversdags fatnaði í skápinn hjá okkur parinu (ekkert á köttinn samt...)

Svo er það bara heimferðin á morgun, föstudag (sem er líklega í dag þegar ég set þessa færslu á netið...) farin að hlakka svo lítið til að komast heim til kalls og kattar og alveg rosalega í mitt eigið rúm því hvorki koddinn(-arnir) né dýnan er eitthvað til að hrópa húrra yfir....en svona í lokinn aðeins að fara yfir það sem ég hef upplifað hér í Danaveldi....

....Danir reykja töluvert meira en Íslendingar (mér finnst alla vega ég sjá meira af fólki reykjandi alls staðar en heima)

....Danir tala frekar hratt, hátt og hvasst...fannst oft á tíðum þegar ég var að hlusta á tvo einstaklinga tala saman að þeir væru að rífast en voru það svo ekki....

...Danskar stelpur láta ekki -8C° frost og rok aftra sér frá því að vera í nylonsokkabuxum og stuttu pilsi á hjóli, ekki frekar en þær íslensku láta lárétta slyddu og hálku aftra sér í að fara í sama fatnaði á djammið....

...bjórinn er ódýr í Danmörku, þrátt fyrir gengið....

....það er ekkert mál að ferðast með S-to, metro, strætó eða hjóla á milli staða, eitthvað sem Íslendingar mættu taka sér til fyrirmyndar (tekur strætó x frá A til B og svo sama strætó hinum megin við götuna frá B til A)

...Danir vita almennt ekki að Íslendingar læra dönsku í skólanum

....Danskt kaffi er vont kaffi (ekki flott kaffi á kaffihúsum, heldur venjulegt kaffi úr kaffikönnu á spítölum, hótelum, skólum o.s.f.v.)

...Danir fylgja mjög fast eftir fyrirfram ákveðnum verklagsreglum, sem getur verið gott og slæmt....

Sit á Kastup með starbuck caramel frappuccino og súkkulaði croissant þegar ég fatta það að flugið er kl.11:55 sem er eiginlega kl.12, þannig núna 2 klt og 20 mín fyrir flug er ég búin að tékka mig inn og fá mér morgunmat.....hvað á ég að gera við restina af tímanum....vonandi verður ekki seinkun eins og i fluginu út (varð hálftíma seinkun). Sem betur fer er flugvöllurinn mun stærri en flugvöllurinn heima og því nóg að skoða og gera :o) kaupi mér jafvel 1 stk Cosmopolitan bara svona af því maður er á erlendum alþjóðlegum flugvelli að blogga tölvunni (kemst reyndar ekki á netið), drekkandi frappuccino og borða súkkulaði croissant ;o)

Flugið gekk ágætlega heim, seinkun um 30 mín...fór í gegnum fríhöfnina frekar snögglega, enda ekki mikið sem ég ætlaði að versla þar og það sem ég ætlaði að versla var ekki til (captain morgan private stock og 2-3 dósir af Sweet Duplin fyrir pabba....). Við tókum því rólega á föstudagskvöldið en ætlum að kíkja út í sitthvoru lagi á laugardaginn, ég að hitta björgunarfólkið mitt og Binni í póker með karlaklúbbnum sínum. Í vikunni fellur allt aftur í sama farið. Síðasta vikan fyrir lokaverkefnið og núna verður maður víst að spýta í lófana. Á mánudaginn eftir viku hefst svo síðasta og (miða við það sem ég hef heyrt) erfiðasta verknámið á þessum fjórum árum, barnahjúkrun....ég ætla samt að reyn að tækla þetta sem ekkert mál og halda ró minni eins og ég get ;o) skólinn mun klárast á endanum og ég mun útskrifast 11.júní!!!

Svona hefur lífið verið í Danmörku og ég mun pottþétt fara þangað aftur og taka kallinn með jafnvel í heila viku því Danmörk hefur margt spennandi upp á að bjóða. Hins vegar er ég ekki spennt fyrir því að koma og vinna sem hjúkrunarfræðingur, kannski í Noregi eða Svíþjóð....

miðvikudagur, mars 09, 2011

4. - 7. mars

Dagur 7-10 – 4.-7.mars

Tíminn er fljótur að líða þessa dagana. Tók 3 morgunvaktir núna, lau, sun og mánudag. Frekar rólegt allt saman, nema á sunnudaginn kom upp töluvert trauma á deildinni. Án þess að fara út í einhver smá atriði var hringt neyðarbjöll á einu herberginu og innan við 5 mín seinna voru 3 læknar, 2 svæfingarhjúkrunarfræðingar, 2 hjartahjúkrunarfræðingar (sáu um EKG og stuðtækið), 3 flutningsmenn (gegna sama hlutverki og sjúkraliðar á slysó heima á Íslandi) mætt á svæðið auk þeirra 3 hjúkrunarfræðinga og 2 lækna sem komu af bráðamóttökunni....og svo ég úti í horni að reyna að gera mig ósýnilega. Allt í allt var þetta um 15 manns sem voru komin inn í þetta litla herbergi með akútvagn, EKG tæki, stuðtæki, monitor og allir að vinna að sama markmiðinu, að bjarga sjúklingnum. Það tókst, alla vega á bráðamóttökunni, svo var farið með hann í tölvusneiðmynd og upp á gjörgæslu. Hafði ekki heyrt af sjúklingnum í dag en þetta er talið hafa verið pneumokokka sepsis eða meningitis. Allt gerðist þetta mjög hratt, hjúkrunarfræðingur sem tók á móti sjúklingnum var enn að klára að meta og taka sjúkrasögu þegar hann fer í hjartastopp. Ég ákvað að standa til hliðar og fylgjast með af þeirri einföldu ástæðu að ég er ekki nógu fær í dönskunni til að taka þátt. Mitt sjálfskipaða hlutverk var að loka hurðinni þegar einhver gekk inn eða út úr herberginu og færa til hluti þegar fólk þurfti að komast fram og til baka. Það var hins vegar mjög fróðlegt að fylgjast með fólkinu, hvað allir voru samstíga, allir með á hreinu hvað er næsta skref og hlutverki hvers og eins, hröð vinnubrögð og alls ekkert panic ástand á neinum. Svo var allt með hinu rólegasta í dag, alla vega um morguninn svo þegar líða tók á daginn fór að aukast álagið. Verður gaman að sjá hvernig morgundagurinn og miðvikudagurinn verða, þau segja á deildinni að það koma alltaf fleiri á kvöldin eftir vinnu heldur en um daginn.

föstudagur, mars 04, 2011

Dagur 3-5 – 28.febrúar – 2.mars

Gleymdi smá fréttafluttningnum en hérna koma síðast liðnu dagar.

Á mánudaginn hitti alþjóðatengiliðinn minn og átti þar gott spjall. Ég fer svo aftur í skólann á fimmtudaginn í næstu viku, þá verður skiptinemadagur einhvers konar þar sem skiptinemarnir hittast, ræða um reynslu sína af heilbrigðiskerfinu i Danmörk, kannski aðeins af heilbrigðiskerfinu í sínu heimalandi og bara svona almennt spjall. Ég hélt þetta væri einhver kynning með powerpoint og veseni en það er ekki svoleiðis, heldur verður okkur skipt í nokkra 4-5 manna hópa og verður umræður þar á milli. Ég hélt líka að þetta væri skilda fyrir mig að mæta á þetta en það kom svo í ljós að svo er ekki en ég ætla samt að mæta, held það verði bara gaman. Ég fór svo í MÓSA strokið sem ég gleymdi að fara og sækja í dag en það er í lagi, get náð í það á morgun þess vegna, er með neikvætt frá Íslandi en þeir vilja líka neikvætt frá Danmörku. Þegar ég var búin á spítalanum í Hvidovre tók ég S-tog til baka að Nörreport St og ákvað að ganga til baka að Hovedbanen í gegnum Nörrebrodgade. Það var skítakuldi en stillt og gott veðrið. Tók myndavélina með mér og tók nokkrar myndir af göngutúrnum og set líka leiðina sem ég fór því ég var svo klár að hafa Garmin úrið mitt með mér ;o) Ég kíkti í nokkrar verslanir í Nörrebrodgade og skellti mér á eitt stk handtösku á 5000kr, hefði átt að kosta 2500 en ég ætla ekki að svekja mig á því. Þegar ég var komin að ráðhústorginu ákvað ég líka að skella mér aðeins á strikið (lesist H&M) og keypti þar nokkrar flíkur á okkur parið, buxur á Binna og jakka á mig. Svo hélt ég bara heim á leið. Endaði daginn svo bara uppi á hótelherbergi, sem er svo sem ekkert nýtt.

Á þriðjudaginn fór ég svo og hitti kennarann minn á bráðamóttökunni og deildarstjórann. Get ekki annað sagt en ég hálfvorkenni deildarstjóranum, hún var s.s. að koma úr fríi og skiljanlega er über mikið álag á henni bara við það að koma úr fríi en svona til að bæta ofan á það var að byrja hjá henni nýr hjúkrunarfræðingur og læknir sama daginn og ég ætlaði að byrja í verknáminu. Þegar við vorum að fara yfir það sem ég vildi fá útúr verknáminu kom í ljós að það hefði verið smá misskilningur því ég hafði sagt að ég vildi læra um störf hjúkrunarfræðinga og hvernig þeir væru að sinna hjúkruninni en ég vildi líka fá fjölbreytt tilfelli til að læra af í klíník. Þetta síðast nefnda hefur einhvern veginn orðið lost in translation, því hún var búin að sjá fyrir sér að ég yrði að taka hálfgerð viðtöl við hjúkrunarfræðingana. Ég sagði deildarstjóranum að ég vildi endilega læra meira í klíníkinni og að ég væri búin að starfa sem hjúkrunarfræðingur á annasamri deild síðastliðna árið (þannig ég er kannski aðeins meira en bara hjúkrunarnemi) og vildi gjarnan fá að vera svolítið sjálfstæð, eins og tungumálakunnáttan leyfir. Komst þá að því að danskir hjúkrunarnema fá ekki að taka hjúkrunarvaktir fyrr en eftir útskrift. Þegar deildarstjórinn var búinn að fara yfir mönnunina fram og tilbaka komst hún að þeirri niðurstöðu að líklega væri best að setja mig á næturvaktir mið og fim og elta einn kláran hjúkrunarfræðing. Ég afþakka það ekki!!! Eftir fundinn fór ég aftur upp á hótel og splæsti á mig sólarhring af internetaðgangi, spjallaði við Binna og m&p í gegnum Skype (snilld!!!) og hékk svo enn og aftur á herberginu. Hef verið að reyna að vinna eitthvað í lokaverkefninu en það er að ganga eitthvað hægt, en gengur samt sem áður.

Á miðvikudaginn fór svo allt í gang, ég svaf út og tók því rólega. Fékk mér að borða hérna á hótelherberginu, las smá, lagði mig fyrir nóttina og reyndi svo að lesa aðeins meira (þetta er allt að koma). Ætlaði að taka strætó um hálf 11 til að vera komin á skikkanlegum tíma, sem ég gerði. Þessar fyrstu tvær nætur voru nokkuð rólegar en ég fékk alla vega tækifæri til að læra að sauma, bara nokkur einföld saumspor. Í dag, föstu dag tók ég því næstum því rólega, fór að versla í Fisktorvet. Fór bara í H&M þar sem verðið á fatnaði í hinum búðunum virtist ekki það mikið lægri en heima á Íslandi, ætlaði að skella mér í bió en svo þegar ég var komin upp á hótel ákvað ég bara að vera inni í kvöld, skelli mér kannski frekar á morgun ;o)

Svona er tíminn fljótur að líða, strax búin að vera hérna í viku og á bara viku eftir, held að seinni vikan eigi eftir að vera svolítið fljótari að líða þar sem ég verð á vöktum á spítalanum.

Hef ekki meira í bili...ætla að koma mér snemma í háttinn til að vera fersk í fyrramálið ;o)